Frida_Smari

Fríða Dís og Smári í Rokksafni Íslands

Tónlistarfólkið og systkinin Fríða Dís og Smári koma fram á Rokksafni Íslands laugardaginn 16. október kl. 14:00. Hljómsveitin Klassart var stofnuð árið 2006 af systkinunum Smára Guðmundssyni og Fríðu Dís Guðmundsdóttur. Fyrsta plata Klassart, Bottle of Blues, kom út ári síðar og fékk hún einróma lof gagnrýnenda. Lögin eru öll blúskotin og sungin á ensku nema eitt, Örlagablús, sem náði hátt á vinsældalistum og sat lengi í efsta sæti á lista Rásar 2. Önnur hljóðversplata hljómsveitarinnar kom út árið 2010 og ber hún heitið Bréf frá París. Lagið Gamli grafreiturinn var mest spilaða lagið á plötunni og jafnframt það mest spilaða á Rás 2 það árið. Sumarið 2014 kom út þriðja breiðskífa Klassart sem nefnist Smástirni en á plötunni kveður við nýjan tón. Segja mætti að tónlistin á fyrri plötunum tveimur sé kántrí- og blússkotin en Smástirni einkennist fremur af synthum og ævintýralegum laga- og textasmíðum sem skapa angurværar melódíur í bland við taktfast popp.